Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Meiri skriðþunga þarf til.

Miðað við þær aðstæður og þau gildi sem almennt virðast viðhafast í umhverfi íslensks og alþjóðlegs fjármálaheims, þykir mér ólíklegt að stjórnmálamenn og opinberir embættismenn geti einir og sér undið ofan af þeirri óheillaþróun er hefur átt sér stað, sama hversu góður ásetningur liggur þar að baki.  Meiri skriðþunga og stærra afl þarf til.

Í kjölfar bankahrunsins hafa tillögur til breytinga einkennst af því að mest tillit sé tekið til hagsmuna tiltölulega fárra aðila, þ.e. bæði innlendra og erlendra kröfuhafa.  Og hvers vegna mætti spyrja?  Jú, því þeir kunna best leikreglurnar í því kerfi sem við lýði er, og eru jafnframt einir af fáum aðilum sem eiga sæti að samningsborðum.  Í gegnum síðasta áratug hafa þeir haft öll spilin á hendi sér því byggst hefur upp kerfi sem er alltaf lánveitendum í hag.  Þetta kerfi var í nafni frjálshyggju fórnarlamb auðhyggju.

Tími er kominn til að stærsti hagsmunaaðilinn, þ.e. íslensku heimilin, fái sæti að samningsborðum.  Tími er kominn til að þjóðin rísi upp og verji sig.  Fólkið í landinu, sem býr á heimilunum sem sífellt er vitnað til þarf að sína samstöðu. Íslensk heimili þurfa að standa saman í baráttu sinni og gera kröfur sínar sýnilegar.  Saman geta þau myndað afl sem ekki er hægt að horfa framhjá, slíkur yrði skriðþunginn.  Fámennum hópi fulltrúa þjóðarinnar getur reynst erfitt að eiga við útsmogna og ágenga kröfuhafa sem bera fyrir sig ríkisábyrgð og úreltum lögmálum hagfræði.  Hins vegar getur erfitt reynst fyrir kröfuhafa, að krefjast opinberlega eigna af almenningi sem augljóslega hefur verið gróflega prúttaður og beittur siðlausu misrétti á marga vegu.  Velta má fyrir sér hvort kröfuhafar séu einmitt þess vegna svo lítt áberandi í umræðunni, þögult samkomulag við fáeina fulltrúa íslenskrar þjóðar er þeim ef til vill í hag.  Fulltrúar þjóðarinnar verða böðullinn, ekki þeir.  Að semja við alla þjóðina sem á líf sitt og viðurværi í húfi, er að vonum ekki ákjósanlegt því almenningur á Íslandi hefur af heilindum og heiðarleika staðið að viðskiptum við banka sína og staðið við sinn hlut.  Það yrði erfið staða fyrir kröfuhafa að ganga á heimilin í landinu ef öllum yrði augljóst að kröfuhafarnir hafa tapað fé sínu í viðskiptum við óheiðarlega banka og ætli því næst í siðblindni að ganga á heiðarlegan almenning sem hafði í raun ekkert með fyrri viðskipti þessarra kröfuhafa að gera.  Almenning sem berst fyrir að halda heimilum sínum og lífsviðurværi, sem gert hefur verið siðlausa atlögu að.

Í fjölmiðlum hefur komið fram að 50% lánaviðskipta gömlu bankanna var til heimila og fyrirtækja í landinu, á meðan 50% var fúslega lánað til fárra útvaldra aðila.  Í hvorum 50% hlutanum er réttmætt að kröfur kröfuhafa, sem tóku þátt í þeim leik að lána of fúslega, liggi?  Fulltrúum þjóðar okkar yrðu samningarviðræðurnar án efa auðveldari ef heimilin í landinu gera öllum ljóst að gömlu bankarnir sviku bæði land og þjóð með sjálftöku og ofurgræðgi, sem er langt frá þeim viðskiptarömmum er settir voru.  Voru forsendur ríkisábyrgðar virkilega enn til staðar?

Íslenskur almenningur hefur hreina samvisku og engu að tapa en réttlætið að vinna.

Hagsmunasamtök heimilanna er kjörinn vettvangur fyrir samstöðuafl.  Vettvangur fyrir þá, er hafa áhuga á að heimilin í landinu snúi bökum saman og myndi samstöðu til að spyrna markvisst gegn aðför að heimilunum og auðlindum þjóðarinnar.  Með hverjum einstaklingi sem gerist aðili að samtökunum fæst meiri skriðþungi sem eykur kröfu heimilanna um mikilvægi málefnisins, sem eykur sýnileika ranglætisins er í því liggur, og sem jafnframt styður við bakið á þeim fulltrúum þjóðarinnar sem standa í samningum við kröfuhafa.  Við höfum búið við kerfi sem er lánveitandanum alltaf í hag, á að leyfa  kröfuhöfum að spila áfram með fé og auðlindir þjóðarinnar?

Hvers vegna að sitja aðgerðarlaus meðan við göngum kaupum og sölum og látum mergsjúga tekjur okkar?

Þess ber að geta að höfundur er skráður félagi í hagsmunasamtökum heimilanna en er ekki virkur í stjórn þess eða á annan hátt tengdur starfsemi þess.
mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband